Minningarleiðin

Þegar þú þarft að muna

Að geyma minningu er svolítið eins og að leggja glansandi helíumblöðru frá sér, ef þú setur hana bara einhverstaðar án þess að binda hana í eitthvað er hætta á að hún fljóti bara eitthvert burt og þá getur verið erfitt að ná henni til baka en við ætlum ekki að gera það. Við ætlum að læra aðferð svo það sem við viljum sé aðgengilegt þegar við þurfum það.Ein aðferð sem hægt er að nota kallast Minningarhöllin/Leiðin (Memory palace) Það sem þú vilt gera er að finna einhvern stað eða einhverja leið sem þú þekkir, setja það sem þú vilt muna þar svo það verði aðgengilegt þegar þú vilt. Ekki vandamálið.Prófaðu þetta: Hér er listi yfir nokkur lönd, í engri sérstakri röð:

1. Austurríki – 2. Portúgal – 3. Svíþjóð – 4. Rúmenía – 5. Kenía

6. Grikkland – 7. Rússland – 8. Skotland – 9. Ástralía – 10. Mexíkó – 11. Írland

12. Bandaríkin – 13. Suður-Kórea – 14. Holland – 15. Kúba

16. Þýskaland – 17. Ísland – 18. Grænland – 19. Ítalía – 20. Finnland

Núna ákveður þú stað sem þú þekkir, hús, gangstíg eða jafnvel vinnustað, segjum bara þar sem þú býrð, skiptir honum niður í svæði í huganum og útbúir stoppistaði. T.d. gæti forstofan verið eitt svæði, næst kæmi gangurinn, síðan fyrsta herbergið og svo koll af kolli. Hugmyndin er að þú gangir, í huganum, í gegn um staðinn eins og þú myndir gera ef þú værir að ganga þar um. Náttúrulega gerum við ekki ráð fyrir að heimilið þitt sé með 20 herbergi þannig að við skulum skipta hverjum stað niður í fleiri svæði. Segjum að það sé skápur í forstofunni. Þá getur forstofan verið 1. og skápurinn 2. Síðan skulum við gefa okkur að það sé spegill þarna líka. Hann verður þá 3. Setjum nú fyrsta, annað og þriðja landið á þessa staði. Byrjum á Austurríki. Hvað tengir þú við Austurríki? Ég hugsa strax um Arnold Schwarzenegger, því ég veit að hann er þaðan, þannig að ég ímynda mér hann standandi í forstofunni. Til að festa hann ennþá betur á staðinn læt ég hann gera einhverja hreyfingu. Ég læt hann dansa og af því að það er víst betra að hreyfingin sé út í hött, þá festist það víst betur, þannig að hann dansar… eins og belja á svelli. Að lokum leik ég mér að hlutföllunum þannig að hann er risastór í forstofunni hjá mér dansandi eins og belja á svelli.Núna er komið að Portúgal. Ég ætla að skipta orðinu í tvennt og ímynda mér líkan af porti og stórt Ú, í fötum og með hatt, vera að gala. Set það í skápinn.Nú er komið að Svíþjóð. Hvað minnir mig á Svíþjóð? Ikea. Hvernig get ég látið Ikea gera eitthvað? Ég gæti kannski ímyndað mér að það rigndi sænskum kjötbollum frá Ikea í speglinum… Ákveð að lokum að halda mig við kjötbollur í speglinum en láta þær vera í kröfugöngu, með kröfuspjöld, og krefjast Ikea. Upphátt. Kjánalegt, fáránlegt, og notast við meira en eitt skynfæri. Ekki nauðsynlegt en getur ekki verið verra að nota fleiri skynfæri. Bara gera tilraunir og sjá hvað virkar best fyrir þig.

Síðan höldum við áfram þangað til við erum komin með 20 staði um heimilið í þeirri röð sem við getum gengið um.Þegar þú ert búin og komin með öll löndin á öll svæðin prófaðu þá að ganga, í huganum, um öll svæðin. Byrjar á forstofunni, (eða hvar sem þú settir fyrstu stöðina. Sumir vilja kannski byrja inni í herbergi eða rúmi. Skiptir ekki máli svo lengi sem þetta er ein samfeld leið.) lítur svo í skápinn, spegilinn og koll af kolli þangað til þú ert komin yfir öll svæðin.Best ef þú þarft ekki að fara yfir sama svæðið tvisvar ef t.d. leiðin skarast en ekki hafa of miklar áhyggjur af því að stundum verður leiðin bara að skarast. Bara ekki setja svæði 15 á sama stað og t.d. svæði 4.Með þessari aðferð ertu að nýta þér langtímaminnið og setja það sem þú vilt muna nokkurn veginn beint þangað í staðinn fyrir skammtímaminnið.Ef þú vilt festa þessa runu í minnið gætirðu þurft að „ganga” í gegn um leiðina aftur nokkrum sinnum (gott að gera það svona 1-3 í viku) og eftir kannski mánuð getur verið að þú sért ekkert að fara að gleyma þessu aftur. Ég man allavega ennþá eftir rússlandi og bandaríkjunum (pínulítill rússi að dansa kósakkadans og Bill Gates að dreifa peningum) frá því þegar ég lærði þessa aðferð fyrst en ég endurtók þá leið bara einu sinni enda ætlaði ég ekkert að muna þann lista, var bara að prófa.

Til að hámarka árangurinn er um að gera að æfa þessa aðferð reglulega með æfingu. T.d. með innkaupalista, uppskrift, heimalærdóminn og bara það sem þér dettur í hug. Aðferðin verður nefnilega auðveldari því oftar sem þú notar hana.

Prófaðu, æfðu þessa aðferð, gerðu tilraunir og þér mun ganga betur að muna.

search previous next tag category expand menu location phone mail time cart zoom edit close